„Skrautlegur leikur“

Tandri Már Konráðsson sækir að marki Fjölnis í kvöld.
Tandri Már Konráðsson sækir að marki Fjölnis í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Tandri Már Konráðsson hrökk í gang með látum í síðari hálfleik og átti stærstan þátt í sigri Stjörnunnar gegn Fjölni 26:25 í Grafarvoginum í kvöld í Olís-deildinni í handknattleik. 

Tandri skoraði tíu mörk fyrir Stjörnuna í leiknum og sigurmarkið þegar fjórar sekúndur voru eftir. Komst Stjarnan þá yfir í fyrsta skipti í leiknum en Fjölnir hafði sex marka forskot um tíma í fyrri hálfleik.

„Þetta var skrautlegur leikur. Ég vil meina að við höfum tapað fimm stigum fyrir áramót á sama hátt, þ.e.a.s þegar við misstum niður góða stöðu. Við skulum ekki gleyma því. Þetta snýst auðvitað ekki um að eiga eitthvað inni heldur að hætta aldrei. Við höfðum trú á þessu í síðari hálfleik en það var smá ryð í okkur framan af. Það er ekkert grín að koma til baka eftir 45 daga pásu. Sérstaklega af því að við vorum á góðri siglingu fyrir jól. Við náðum að hrista þetta af okkur,“ sagði Tandri en Fjölnir var yfir 15:11 að loknum fyrri hálfleik. 

Allt annar bragur var á liði Stjörnunnar í síðari hálfleik. „Ég er svekktur út í okkur vegna þess hvernig við spiluðum í fyrri hálfleik. Við erum búnir að æfa ógeðslega vel í janúar og spila fína æfingaleiki. Við þurfum að fara yfir þetta því við erum í toppformi og getan er til staðar. Þetta hefur eitthvað með hausinn að gera,“ sagði Tandri í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert