Kolding staðfestir komu íslenska markvarðarins

Ágúst Elí Björgvinsson fagnar sænska meistaratitlinum 2019 með Sävehof.
Ágúst Elí Björgvinsson fagnar sænska meistaratitlinum 2019 með Sävehof. Ljósmynd/Sävehof

Danska handknattleiksfélagið KIF Kolding hefur staðfest að það hafi samið við íslenska landsliðsmarkvörðinn Ágúst Elí Björgvinsson til tveggja ára, frá og með næsta sumri.

Í gær kom fram í dönskum fjölmiðlum að Ágúst væri á leið til Kolding en hann hefur spilað með Sävehof í sænsku úrvalsdeildinni síðustu ár og varð sænskur meistari með liðinu á síðasta keppnistímabili. Fyrir jól gaf Ágúst út að hann færi frá Sävehof að þessu tímabili loknu.

„Ég hlakka mikið til að takast á við nýjar áskoranir hjá KIF Kolding, félagi með langa og glæsilega sögu. Ég tel að það sé rétta skrefið fyrir mig á ferlinum að fara í dönsku úrvalsdeildina,“ segir Ágúst í fréttatilkynningu sem Kolding sendi frá sér í dag.

„Með samningnum við Ágúst fáum við ungan markvörð sem hefur þegar fengið reynslu í Meistaradeild Evrópu. Hann getur enn bætt sig umtalsvert og er þegar farinn að spila í háum gæðaflokki. Við hlökkum mikið til að fylgjast með frekari framþróun hans hjá KIF,“ segir Christian Phillip, stjórnarmaður KIF Kolding, í tilkynningunni.

Ágúst er 24 ára gamall og lék með FH áður en hann fór til Svíþjóðar. Hann var í 19 manna landsliðshópnum sem var valinn fyrir EM fyrr í þessum mánuði en var ekki í hópnum á mótinu. Með Kolding leika þeir Ólafur Gústafsson og Árni Bragi Eyjólfsson en liðið er sem stendur í 12. sæti af 14 liðum í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert