Samningsbundinn ÍR til 2022

Bjarni Fritzson.
Bjarni Fritzson. mbl.is/Þórir

Bjarni Fritzson verður áfram þjálfari meistaraflokks karla hjá ÍR og hefur framlengt samning sinn við ÍR um tvö ár eða til vorsins 2022. 

Í yfirlýsingu frá ÍR segir meðal annars: 

Stjórn og aðstandendur handknattleiksdeildar ÍR eru mjög ánægð með störf Bjarna og binda miklar vonir við framhaldið.

Þá er haft eftir Sigurði Rúnarssyni, formanni handknattleiksdeildar, að ánægja ríki bæði með uppbyggingu hjá félaginu sem og árangurinn í efstu deild karla í vetur. 

„Við erum á mikilli siglingu með strákana okkar og erum sem stendur í efri hluta deildarinnar. Það er mikil ánægja með störf Bjarna og þá uppbyggingu sem hann hefur leitt hjá félaginu undanfarin ár.“

ÍR er með 22 stig í Olís-deild karla eftir 16 umferðir. Liðið er með jafn mörg stig og Valur sem er í 3. sæti en þau eru þremur á eftir toppliði Hauka. ÍR-ingar eru jafnframt komnir í 8-liða úrslit bikarkeppninnar en leikið verður í vikunni í bikarnum og þá heimsækir ÍR lið Aftureldingar. 

Bjarni er á fertugasta aldursári og tók við ÍR árið 2014.  Áður hafði hann þjálfað lið Akureyrar sem hann lék einnig með.

Bjarni er uppalinn hjá ÍR og varð bikarmeistari með ÍR árið 2005. Hann lék sem atvinnumaður í Frakklandi með Creteil og St. Raphael um fjögurra ára skeið en hér heima var hann einnig um tíma hjá FH. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert