Fyrirliði Barcelona hættir vegna hjartveiki

Víctor Tomás fyrirliði Barcelona.
Víctor Tomás fyrirliði Barcelona. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Samherji Arons Pálmarssonar hjá Barcelona, Victor Tomás, mun láta gott heita í handboltanum í sumar vegna hjartveiki sem nýlega kom í ljós við læknisskoðun. 

Tomás er fyrirliði liðsins og hefur verið hjá félaginu allan sinn feril. Tomás er 34 ára gamall og hefur verið hjá aðalliði Barcelona í átján ár. 

Hann var því einnig samherji Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Barcelona en þá sigraði liðið í Meistaradeild Evrópu árið 2015. 

Í ljósi stöðunnar segir Tomás að skynsamlegast sé fyrir sig að hætta en líkur benda til þess að heilsufarið hafi versnað með árunum. Ef hann héldi áfram þjálfun sem afreksmaður gæti hann sett sig í hættu vegna hjartveikinnar. 

Victor Tomás.
Victor Tomás. AFP

„Ég hafði nú ekki hugsað mér að hætta undir slíkum kringumstæðum en ég vil geta lifað eðlilegu lífi í framtíðinni,“ sagði Tomás á blaðamannafundi. 

Forseti félagsins, Josep Maria Bartomeu, tilkynnti við sama tilefni að treyja númer 8 yrði hengd upp í Blaugrana-höllinni að tímabilinu loknu. Hann gaf til kynna að Tomási byðist starf hjá félaginu þegar hann hættir að spila. 

Tomás lék einnig 175 A-landsleiki fyrir Spán á árunum 2004 til 2017. Varð hann heimsmeistari með liðinu 2013. 

Hægri hornamaðurinn, Janc Blaz, kemur til Barcelona frá Kielce í Póllandi næsta sumar en hann er slóvenskur landsliðsmaður. Fyrir hjá Barcelona er Slóveninn Jure Dolenec í skyttustöðunni hægra megin. 

Aron og samherjar munu sjá á eftir tveimur reyndum heimamönnum í sumar því áður hafði Raúl Entrerríos tilkynnt að tímabilið sem nú stendur yfir yrði hans síðasta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert