Voru með myndir af mæðrum okkar í stúkunni

Stuðningsmenn ÍBV í stuði í leik ÍBV og FH síðasta …
Stuðningsmenn ÍBV í stuði í leik ÍBV og FH síðasta fimmtudag. Samkvæmt FH-ingum voru einhverjir þeirra í aðeins of miklu stuði. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Handknattleikssamband Íslands hefur nú til skoðunar atvik sem áttu sér stað eftir bikarleik karla á milli ÍBV og FH í Vestmannaeyjum í síðustu viku.

Fjallað er um þetta í Fréttablaðinu í dag og haft er eftir Róberti Gíslasyni framkvæmdastjóra HSÍ að málið sé komið inn á borð til hans, skýrsla frá eftirlitsdómara liggi fyrir og verið sé að afla frekari gagna áður en málið verði tekið fyrir.

Fram kemur að stuðningsmenn ÍBV hafi ruðst að búningsklefa FH-inga eftir leikinn, barið á klefahurðina, sungið niðrandi söngva og kallað leikmenn öllum illum nöfnum, eins og það er orðað í Fréttablaðinu.

Haft er eftir leikmanni FH í blaðinu: „Þeir voru með myndir af mæðrum okkar í stúkunni og voru búnir að skrifa alls konar skilaboð á þær myndir. Það angraði mann lítið í leiknum. Eftir leik fórum við inn í klefa og þá voru læti í þeim, einhverjir 15-20 að berja á hurðina, segja að við værum aumingjar og fleira.“

mbl.is