Hnífjafnt í Íslendingaslagnum

Oddur Gretarsson var í stuði hjá Balingen.
Oddur Gretarsson var í stuði hjá Balingen.

Íslendingaliðin Wetzlar og Rhein-Neckar Löwen skiptu með sér stigunum er þau mættust í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur í Wetzlar urðu 27:27. 

Ýmir Örn Gíslason lék í fyrsta skipti með Löwen og skoraði eitt mark, en hann gekk í raðir Löwen frá Val á dögunum. Alexander Petersson skoraði tvö mörk fyrir liðið, sem Kristján Andrésson þjálfar. Viggó Kristjánsson komst ekki á blað hjá Wetzlar. Löwen er í sjötta sæti deildarinnar með 29 stig og Wetzlar í áttunda sæti með 25 stig. 

Oddur Gretarsson var í stuði hjá Balingen og skoraði átta mörk er liðið heimsótti Erlangen. Því miður fyrir Akureyringinn dugði það ekki til því Erlangen vann 32:27-sigur. Balingen er í 16. sæti með 15 stig, þremur stigum fyrir ofan fallsæti. 

Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk en Ragnar Jóhannsson komst ekki á blað er Bergischer mátti þola 22:28-tap fyrir Göppingen á útivelli. Þá skoraði Elvar Ásgeirsson ekki fyrir Stuttgart í 26:21-útisigri á Melsungen. 

Lærisveinar Geirs Sveinssonar stóðu betur í ríkjandi meisturum í Flensburg á útivelli en flestir áttu von á. Að lokum vann Flensburg þó 29:27-sigur. Nordhorn er í botnsætinu með tvö stig. 

mbl.is