Eyjamenn fóru illa með toppliðið

Hákon Daði Styrmisson í færi í dag.
Hákon Daði Styrmisson í færi í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn unnu öflugan sigur á Haukum þegar liðin mættust í Vestmannaeyjum í dag, Haukar voru á toppnum fyrir leikinn en verða það ekki mikið lengur miðað við frammistöðu þeirra, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Í hálfleik var staðan 21:13 en lokatölur voru 36:28.

Dagur Arnarsson var ótrúlega öflugur og fylgdi eftir frábærri frammistöðu sinni í síðasta leik. Hann skoraði tíu mörk og stjórnaði leik Eyjamanna frábærlega. Hann skapaði einnig sjö færi fyrir liðsfélaga sína, fjögur þeirra skiluðu marki.

Eyjamenn kafsigldu Hauka í fyrri hálfleik og var í raun ótrúlegt að sjá hversu mikla yfirburði Eyjamenn voru með á öllum sviðum. Í raun það eina jákvæða í hálfleik fyrir gestina var að þetta var svo slæmt að það gat varla versnað. Staðan var 21:13 og höfðu gestirnir tekið bæði leikhléin sín fyrir 25. mínútu.

Vörn Eyjamanna, markvarsla og hraðaupphlaup voru góð og virkuðu eins og vel smurð vél, leikurinn var gríðarlega hraður og gaf sterk vörn Eyjamanna af sér auðveld mörk á hinum endanum.

Öllum var þó ljóst í hálfleik að seinni hálfleikurinn myndi ekki vera spegilmynd fyrri hálfleiksins. Átta mörk er mikill munur en þó hafa fleiri en einn og fleiri en tveir leikir á tímabilinu sveiflast fram og til baka með svipuðum mun. Hákon Daði Styrmisson og Dagur Arnarsson voru markahæstir með fimm mörk í fyrri hálfleik en Tjörvi Þorgeirsson var með þrjú mörk hjá gestunum.

Mikið jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik en Eyjamenn héldu sinni 7-10 marka forystu nánast út allan leikinn. Undir lokin náðu gestirnir að minnka muninn í fimm mörk en leiknum lauk með 8 marka sigri, 36:28.

Heimir Óli Heimisson var frábær hjá gestunum í síðari hálfleik og var í heildina með 8 mörk. Orri Freyr skoraði einnig mikið af mörkum og endaði með 5. Dagur (10), Hákon (8) og Kristján Örn Kristjánsson (6) voru markahæstir heimamanna.

ÍBV 36:28 Haukar opna loka
60. mín. Petar Jokanovic (ÍBV) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert