Kristján rekinn frá Löwen

Kristján Andrésson er búinn að missa vinnuna í Þýskalandi.
Kristján Andrésson er búinn að missa vinnuna í Þýskalandi. AFP

Þýska handknattleiksfélagið Rhein-Neckar Löwen rak í dag Kristján Andrésson, þjálfara liðsins. Verður Kristján því ekki við stjórn er liðið mætir Cuenca frá Spáni í EHF-bikarnum á morgun. 

Kristján tók við Löwen af Nikolaj Jacobsen fyrir tímabilið og samdi til 2022. Liðið féll hins vegar snemma úr þýska bikarnum og er í sjötta sæti deildarinnar með 30 stig eftir 23 leiki, tíu stigum frá toppliði Kiel. Löwen er aðeins með einn sigur í síðustu fjórum deildarleikjum. 

Kristján þjálfaði sænska karlalandsliðið meðfram því að þjálfa Löwen, en hann lét af störfum eftir EM í janúar. Hann er því atvinnulaus sem stendur. Ásamt því að þjálfa Löwen og sænska landsliðið hefur hann einnig þjálfað Eskilstuna Guif í Svíþjóð. 

Alexander Petersson hefur leikið með Löwen síðustu ár og þá samdi Ýmir Örn Gíslason við félagið á dögunum. 

mbl.is