Eyjamenn völtuðu yfir Fjölni

Hákon Daði Styrmisson var markahæstur Eyjamanna með 11 mörk.
Hákon Daði Styrmisson var markahæstur Eyjamanna með 11 mörk. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV er komið í fjórða sæti úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olísdeildarinnar, eftir þrettán marka stórsigur gegn Fjölni í Dalhúsum í nítjándu umferð deildarinnar í dag. Leiknum lauk með 38:25-sigri ÍBV en Eyjamenn leiddu með níu mörkum í hálfleik, 21:12.

Eyjamenn leiddu með fjórum mörkum eftir fimm mínútna leik, 4:1 og var munurinn orðinn átta mörk eftir tuttugu mínútna leik, 16:8. ÍBV hélt svo áfram að auka forskot sitt í síðari hálfleik og Fjölnismenn aldrei líklegir til þess að koma til baka.

Hákon Daði Styrmisson var markahæstur Eyjamanna með ellefu mörk, þar af fjögur af vítalínunni, og þá skoraði Kristján Örn Kristjánsson sjö mörk. Björn Viðar Björnsson varði níu skot í marki Eyjamanna og var með 41 í markvörslu.

Breki Dagsson skoraði fimm mörk fyrir Fjölnismenn sem eru með 5 stig í neðsta sæti deildarinnar og féllu með þessum úrslitum. ÍBV er hins vegar komið í fjórða sætið en liðið er með jafn mörg stig og FH en Hafnfirðingar eiga leik til góða og mæta HK síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert