Halldór Jóhann á leið á Selfoss

Halldór Jóhann Sigfússon skrifaði undir þriggja ára samning við Selfyssinga …
Halldór Jóhann Sigfússon skrifaði undir þriggja ára samning við Selfyssinga á dögunum. Ljósmynd/Selfoss

Halldór Jóhann Sigfússon mun taka við þjálfun meistaraflokks karla í handknattleik hjá Selfossi næsta sumar en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag. Halldór tekur við liðinu af Grími Hergeirssyni sem tilkynnti það á dögunum að hann myndi ekki þjálfa liðið á næstu leiktíð.

Halldór Jóhann skrifar undir þriggja ára samning við Selfyssinga og þá verður hann einnig framkvæmdastjóri handknattleiksakademíunnar sem deildin rekur ásamt Fjölbrautaskóla Suðurlands. Halldór Jóhann er í dag þjálfari Fram en hann tók við liðinu í lok nóvember af Guðmundi Helga Pálssyni.

Halldór er uppalinn KA-maður og spilaði auk þess með Fram hér heima. Þá hefur hann einnig spilað með Friesenheim og Essen í Þýskalandi. Hann hóf þjálfaraferil sinn hjá kvennaliði Fram sem hann gerði að Íslandsmeisturum árið 2013. Halldór þjálfaði FH í fimm ár og gerði liðið að deildarmeisturum árið 2017 og bikarmeisturum í fyrra. Þá er hann einnig aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert