Skorti kjark og þor gegn toppliðinu

ÍR-ingurinn Kristján Orri Jóhannsson í dauðafæri í leiknum í kvöld.
ÍR-ingurinn Kristján Orri Jóhannsson í dauðafæri í leiknum í kvöld. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Sigurganga Valsmanna í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, hélt áfram þegar liðið heimsótti ÍR í Austurberg í Breiðholti í nítjándu umferð deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með eins marks sigri Valsmanna, 24:23, en Valsmenn leiddu með einu marki í hálfleik, 14:13.

Liðunum gekk illa að skora í byrjun en Valsmenn byrjuðu leikinn þó betur og Magnús Óli Magnússon kom þeim þremur mörkum yfir, 3:0, eftir þriggja mínútna leik. Hreiðar Levý Guðmundsson, markmaður Valsmanna, lokaði markinu á fyrstu mínútum leiksins og Hafþór Már Vignisson skoraði fyrsta mark ÍR eftir fjögurra mínútna leik. ÍR-ingar unnu sig vel inn í leikinn og komust 4:3-yfir þegar Arnar Freyr Guðmundsson leysti inn á línu og skoraði af miklu öryggi. Liðin skiptust á að skora eftir þetta en þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka kom Þorgils Jón Svölu Baldursson Valsmönnum tveimur mörkum yfir, 11:9, af línunni. ÍR-ingar neituðu að gefast upp og þeim tókst að jafna metin í 13:13.

ÍR fékk tækifæri til þess að komast yfir rétt undir lok fyrri hálfleiks en liðið kastaði boltanum frá sér. Valsmenn brunuðu upp í sókn, skoruðu, og þeir hefðu með smá heppni getað verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, en Ásgeir Snær Vignisson greip ekki boltann þegar Valsmenn reyndu sirkusmark á lokasekúndum fyrri hálfleiks og Valsmenn því með eins marks forskot í hálfleik, 14:13. ÍR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur en þann fyrri og Bergvin Þór Gíslason jafnaði metin í 14:14 í fyrstu sókn Breiðhyltinga. ÍR fékk svo tækifæri til þess að komast yfir eins og áður í leiknum en kastaði boltanum frá sér í næstu sókn.

Valsmenn gengu á lagið og náðu tveggja marka forskoti, 16:14, þegar Magnús Óli skoraði með fallegu skoti utan teigs. ÍR-ingar voru fljótir að svara og Hafþór Már jafnaði metin í 17:17 með undirhandarskoti þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Þá hrökk Daníel Freyr Andrésson í gang í marki Valsmanna og hann varði hvert dauðafærið á fætur öðru hjá ÍR-ingum. Valsmenn nýttu sér þetta í sóknarleiknum og Róbert Aron Hostert kom Valsliðinu þremur mörkum yfir, 21:18, með laglegu gegnumbroti þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Breiðhyltingar neituðu að játa sig sigraða og Björgvin Þór Hólmgeirsson jafnaði metin fyrir ÍR-inga með þrumuskoti utan teigs þegar sjö mínútur voru til leiksloka, 22:22.

Þegar fimm mínútur voru til leiksloka kom Róbert Aron Hostert Valsmönnum marki yfir, 24:23, þegar hann lyfti sér upp fyrir utan og skoraði rétt áður en dæmd var leiktöf. Hreiðar Levý Guðmundsson, markmaður Valsmanna, varði frá Sturlu Ásgeirssyni úr vinstra horninu í næstu sókn á eftir. Valsmenn fengu tækifæri til þess að klára leikinn en Sigurður Ingiberg í marki ÍR varði stórskotlega frá Þorgilsi Jóni af línunni og munurinn áfram eitt mark. ÍR-ingum tókst hins vegar ekki að jafna metin þrátt fyrir fjölda tækifæra og þá skorti einfaldlega kjark, þor og hreðjar til þess að vinna leikinn.

Valur er áfram í efsta sæti deildarinnar með 28 stig og hefur nú tveggja stiga forskot á FH sem er í öðru sætinu. ÍR var að tapa sínum þriðja leik í röð í deildinni og er nú komið niður í sjöunda sæti deildarinnar.

ÍR 23:24 Valur opna loka
60. mín. Leik lokið Valsmenn fagna enn einum sigrinum en ÍR-ingar geta sjálfum sér um kennt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert