Komin í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar

Rut Arnfjörð Jónsdóttir í landsleik.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir í landsleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rut Jónsdóttir og samherjar hennar í danska liðinu Esbjerg tryggðu sér í dag sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik með því að sigra Vipers Kristiansand frá Noregi, 35:30, á heimavelli.

Með sigrinum er Esbjerg komið með 11 stig í átta umferðum í A-riðli keppninnar og öruggt með að fara áfram þótt tveimur umferðum sé ólokið. Metz frá Frakklandi er einnig með 11 stig en Rostov-Don frá Rússlandi og CSM Búkarest frá Rúmeníu koma næst með 9 stig.

Rut skoraði ekki í leiknum en markahæst hjá Esbjerg var hollenska landsliðskonan Estavana Polman, besti leikmaður heimsmeistaramótsins í desember þar sem hún fagnaði HM-titlinum með hollenska liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert