Guðmundur ráðinn til Þýskalands

Guðmundur Guðmundsson er kominn til Melsungen.
Guðmundur Guðmundsson er kominn til Melsungen. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þýska 1. deildarfélagið Melsungen gekk í dag frá ráðningu Guðmundar Guðmundssonar sem þjálfara liðsins. Gerði hann samning við félagið sem gildir út leiktíðina. Guðmundur tekur við af Heiko Grimm sem var látinn fara í gær. 

„Okkur tókst að ráða reynslumikinn þjálfara sem er vel þekktur í Þýskalandi og er með glæsilegt orðspor,“ segir í tilkynningu frá félaginu. Guðmundur þekkir vel til Þýskalands en hann þjálfaði Dormagen frá 1999 til 2001 og Rhein-Neckar Löwen frá 2010 til 2014. 

„Það er ekki sjálfsagt að fá eins góðan þjálfara og Guðmund með svo skömmum fyrirvara, við vorum svolítið heppnir. Við erum mjög ánægðir með viðbrögð Guðmundar og hann verður klár í slaginn strax á laugardaginn,“ sagði Axel Geerken, yfirmaður íþróttamála hjá félaginu. 

Guðmundur mun áfram þjálfa íslenska landsliðið meðfram Melsungen, en hann verður formlega tilkynntur sem þjálfari liðsins á blaðamannafundi á föstudag. Hann verður ekki á hlíðarlínunni er liðið mætir Bergischer í deildinni annað kvöld. Fyrsti leikur Guðmundur verður gegn Bjerringbro-Silkeborg í EHF-bikarnum á laugardaginn kemur. 

Liðið er í sjöunda sæti þýsku 1. deildarinnar með 28 stig eftir 23 leiki, tólf stigum á eftir toppliði Kiel. 

mbl.is