Harðarmenn og Þórsarar ná sáttum

Úr leiknum umrædda á Ísafirði þann 30. september.
Úr leiknum umrædda á Ísafirði þann 30. september. Ljósmynd/Facebook

Hörður frá Ísafirði og Þór á Akureyri hafa náð sáttum vegna máls sem kom vegna bikarleiks liðanna í handknattleik í september á síðasta ári. Þórsarar unnu leikinn 39:16 en hann fór fram á Ísafirði á heimavelli Harðar. Harðarmenn þurfti að greiða helming af öllum kostnaði Þórsara í tengslum við leikinn samkvæmt reglum HSÍ og það voru Ísfirðingar ósáttir með þar sem þeir töldu kostnað Þórsara fara langt fram úr því sem eðlilegt þykir.

Þórsarar sendu frá sér yfirlýsingu á heimasíðu sinni í dag þar sem þeir segja málinu formlega lokið. „Heildarkostnaður við leikinn var 692.906 krónur, vegna flugs Þórsara á milli Akureyrar og Ísafjarðar, aksturs til og frá flugvelli á Ísafirði og dómara. Uppgjöri er nú lokið í fullri sátt og Þór hefur fengið greiddar 237.000 krónur, þann hluta sem Herði bar að greiða skv. reglum Handknattleikssambands Íslands (HSÍ), þegar dreginn hafði verið frá kostnaður sem Hörður greiddi, m.a. vegna dómara,“ segir meðal annars í tilkynningu Þórsara.  

„Þess má geta að upphæðin hefði getað verið lægri ef selt hefði verið inn á leikinn. HSÍ hefur staðfest í tvígang að farið var í einu og öllu eftir reglum sambandsins. Nefna má sem dæmi að eins var staðið að málum þegar Selfyssingar léku við Þór á Akureyri í bikarkeppninni í haust. Selfyssingar óku til Reykjavíkur og flugu þaðan norður en óku að vísu til baka. Þór greiddi helming alls kostnaðar við leikinn.

Forsvarsmenn Harðar og HSÍ vissu með góðum fyrirvara að Þórsarar færu fljúgandi til Ísafjarðar og skv. útreikningum HSÍ var kostnaðurinn við flugið ótrúlega litlu meiri en hefðu Þórsarar ekið á milli Akureyrar og Ísafjarðar og gist þar eina nótt. Var þó ekki gert ráð fyrir vinnutapi leikmanna Þórs. Ánægjulegt er að sættir náðust og málið er úr sögunni,“ segir ennfremur í tilkynningu Þórsara sem má lesa með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert