Segir umræðuna um kvennaíþróttir óásættanlega

Eva Björk Davíðsdóttir í leik með Skuru gegn Val í …
Eva Björk Davíðsdóttir í leik með Skuru gegn Val í EHF-bikarnum síðasta haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eva Björk Davíðsdóttir, landsliðskona í handknattleik og leikmaður Skuru í sænsku úrvalsdeildinni, er allt annað en sátt með umræðuna um úrvalsdeild kvenna í hlaðvarpsþættinum „Handkastið“ á dögunum. Þar ræddu þáttastjórnendurnir, þeir Arnar Daði Arnarson og  Styrmir Sigurðsson um Olísdeild kvenna og úrslitin í deildinni í vetur, sem hafa sum hver verið ansi stór.

„Fram vinnur KA/Þór 43:18, Valur vinnur ÍBV 33:14 og þetta gerist bara upp úr þurru,“ sagði Arnar Daði í þættinum. „Núna hefur maður heyrt af því í viðtölum við þjálfara í fótbolta, körfubolta og handbolta að það sé tvennt ólíklegt að þjálfa stelpur og stráka,“ bætti Styrmir við. „Er það ekki bara þannig að stelpurnar brotna fyrr þegar illa gengur í byrjun,“ bætti Styrmir við.

Eva Björk er vægast sagt ósátt með þessa umræðu og lét í sér heyra á Twitter. „Nú reyni ég að fylgjast með Olísdeild kvenna eins mikið og ég get en það hefur alls ekki verið auðvelt þar sem að umfjöllun er ekki upp á marga fiska. Ég fagna því alltaf þegar kvennaboltinn er til umræðu en því miður er sú umræða ekki oft á háu plani og þarna finnst mér ákveðnum botni vera náð.“

„Að segja það beint út að stelpur „brotni bara fyrr en strákar“ og „gefast bara upp þegar þær eru undir“ er algjörlega út úr kortinu. Það hefur verið ákveðinn getumunur á liðum í Olísdeild kvenna síðustu ár og vissulega óvenjulega mikið um stórsigra í ár, en að fara með umræðuna á þetta plan er gjörsamlega óásættanlegt og nákvæmlega það sem er að þegar fjallað er um kvennaíþróttir á Íslandi í dag,“ bætti landsliðskonan við.

Styrmir hefur nú svarað Evu á Twitter þar sem hann biðst afsökunar á ummælum sínum en Ragnheiður Júlíusdóttir, leikmaður Fram, er ein af þeim sem tekur undir með Evu. Þá hefur Benedikt Gretarsson, fyrrverandi íþróttafréttamaður á RÚV einnig tjáð sig um færsluna sem hefur vægast sagt vakið upp mikil viðbrögð á Twitter.Ragnheiður Júlíusdóttir er ein af þeim sem hefur tekið undir …
Ragnheiður Júlíusdóttir er ein af þeim sem hefur tekið undir færslu Evu á Twitter. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is