Taplaus eftir áramót og enn markahæstur

Bjarki Már Elísson er markahæstur í þýsku 1. deildinni.
Bjarki Már Elísson er markahæstur í þýsku 1. deildinni. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Lemgo vann góðan 32:27-heimasigur á Wetzlar í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld. Bjarki Már Elísson skoraði fimm mörk fyrir Lemgo og Viggó Kristjánsson gerði tvö mörk fyrir Wetzlar. 

Lemgo hefur verið á góðu skriði eftir áramót og er liðið búið að vinna fjóra leiki og gera eitt jafntefli í fimm leikjum eftir EM í byrjun árs. Bjarki hefur nú skorað 194 mörk á tímabilinu og er hann markahæstur allra í deildinni. 

Á eftir honum kemur Hans Óttar Lindberg með 186 mörk, en hann skoraði átta mörk fyrir Füchse Berlin sem tapaði gríðarlega óvænt á heimavelli fyrir lærisveinum Geirs Sveinssonar í Nordhorn, 30:32. Sigurinn var aðeins sá annar á öllu tímabilinu hjá Nordhorn sem er enn langneðst með fjögur stig. 

Melsungen hafði betur gegn Bergischer, 28:25, á heimavelli. Guðmundur Guðmundsson fylgist með Melsungen á sjónvarpsskjánum, en hann var ráðinn þjálfari liðsins í gær. Stýrir hann því í fyrsta skipi í EHF-bikarnum um helgina. Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer og Ragnar Jóhannsson eitt mark. 

Þá skoraði Oddur Gretarsson eitt mark fyrir Balingen í 32:34-tapi fyrir Magdeburg. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Magdeburg vegna meiðsla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert