Það er lítið eldfjall í mér

Guðmundur Guðmundsson er tekinn við Melsungen í Þýskalandi.
Guðmundur Guðmundsson er tekinn við Melsungen í Þýskalandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hlakka til verkefnisins,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, nýráðinn þjálfari þýska 1. deildar liðsins Melsungen, í samtali við þýska fjölmiðla er hann var kynntur til leiks hjá félaginu í dag. 

Vel var tekið á móti Guðmundi og kepptust ljósmyndarar við að ná myndum af íslenska þjálfaranum á meðan hann ræddi við fjölmiðla á reiprennandi þýsku, en hann hefur áður þjálfað Dorma­gen frá 1999 til 2001 og Rhein-Neckar Löwen frá 2010 til 2014. 

„Ég reyni að halda ró minni á réttum augnablikum, en það er lítið eldfjall inn í mér. Ég vil spila nútíma handbolta og samvinna markvarða og varnarmanna er mikilvæg. Ég legg svo áherslu á snöggar sóknir,“ sagði Guðmundur. 

Að sögn þýska miðilsins HNA hefur Guðmundur þegar horft á marga klukkutíma af leikjum Melsungen á tímabilinu, en hann er þekktur fyrir að fara ítarlega í smáatriðin.

Fyrsti leikur Guðmundar á hliðarlínunni verður gegn Bjerringbro-Silkeborg frá Danmörku í EHF-bikarnum á heimavelli á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert