Sjokkeraður yfir ákvörðun Norðmanna

Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari Volda, er afar ósáttur með ákvörðun …
Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari Volda, er afar ósáttur með ákvörðun norska handknattleiksambandsins. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Maður gerði sér grein fyrir því að sama hvaða ákvörðun yrði tekin í þessu máli þá yrði hún alltaf mjög erfið en maður bjóst ekki alveg við þessu verð ég að segja,“ sagði handknattleiksþjálfarinn Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari norska kvennaliðsins Volda, í samtali við mbl.is í dag.

Í síðustu viku tilkynnti norska handknattleikssambandið að tímabilið í Noregi væri búið vegna kórónuveirunnar. Í dag var svo ákveðið að þrjú lið færu upp úr B-deildinni sem Volda leikur í. Larvik og Flint Tönsberg fara upp, en þau enduðu í fyrsta og öðru sæti deildarinnar. Lið Rælingen, sem var í fjórða sæti deildarinnar með 27 stig eftir 20 spilaða leiki, fór svo upp um deild á kostnað Volda sem var í þriðja sætinu með 28 stig eftir 21 leik.

„Maður er í raun bara sjokkeraður því manni finnst í raun bara á manni brotið ef svo má segja. Við vorum alls ekki að kalla neitt eftir því að við myndum fara upp um deild yfirhöfuð. Okkur hefði fundist eðlilegt, fyrirfram í það minnsta, að þar sem við vorum í þessu svokallaða umspilssæti þegar leiktíðinni var slaufað þá yrði það bara dæmt dautt og gilt og aðeins tvö lið myndu fara upp um deild. Það að liðið sem er svo í fjórða sæti B-deildarinnar skuli fara upp um deild er algjörlega fáránlegt. Okkur finnst líka sérstakt hvernig þetta er unnið því það hefði verið mun rökréttara að setja þá bæði liðin upp, í þriðja og fjórða sætinu það er að segja, þar sem að það verða þá þrettán lið í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð en ekki fjórtán sem flækir málin meira.“

Halldór Stefán Haraldsson hefur stýrt norska liðinu frá árinu 2016.
Halldór Stefán Haraldsson hefur stýrt norska liðinu frá árinu 2016. Ljósmynd/Volda

Rökréttara að fara sænsku leiðina

Norska handknattleikssambandið studdist við ákveðna formúlu þegar ákveðið var hvaða lið skyldu falla og hver fara upp um deild. Stigafjölda liðanna var deilt með spiluðum leikjum og þar kom Rælingen betur út en Volda en lið Halldórs Stefáns er ekki eina liðið sem kom illa út úr útreikningum handknattleikssambandsins.

„Þeir gerðu þetta svona því þeir voru að reyna að nota sömu aðferðafræði í öllum sínum deildum. Okkar deild var bara eins og hún var og svo voru aðrar deildir þar sem nokkur lið áttu möguleika á því að fara upp. Þeim fannst þetta vera sanngjarnasta niðurstaðan en í C-deildinni sem dæmi eru fjórir riðlar og þessi formúla hentaði kannski betur þar. Þar er til dæmis lið sem var í þriðja sæti síns riðils sem fer upp um deild á kostnað liðsins sem var í fyrsta sæti þegar deildarkeppninni var slaufað. Þessi aðferðafræði stangast algjörlega á við það sem Svíar gerðu sem dæmi þar sem liðið í fyrsta sæti fór bara beint upp. Mér hefði persónulega fundist það rökréttari niðurstaða.“

Volda hefur leitað sér lögfræðiaðstoðar vegna málsins og ætlar sér að kæra úrskurð norska handknattleikssambandsins.

„Við erum búnir að vera í sambandi við handknattleikssambandið og þeir hafa í raun bara kvatt okkur til þess að kæra þetta. Þeir eru tilbúnir að aðstoða okkur við það sem er vel og við erum með lögfræðinga sem eru að vinna í þessu fyrr okkur. Það má alveg segja það líka að það er smá smábæjarbragur á þessu, við erum lítið lið úti á landi en liðið sem fær að fara upp er staðsett í Osló og okkur finnst þetta mál afar óréttlátt í alla staði,“ sagði Halldór Stefán í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert