Snuðaðar um sæti í efstu deild

Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari Volda í norsku B-deildinni.
Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari Volda í norsku B-deildinni. Ljósmynd/Volda

Tímabilið hjá Halldóri Stefáni Haraldssyni og lærikonum hans í norska B-deildarliðinu Volda er búið eftir að norska handknattleikssambandið ákvað að tímabilinu þar í landi væri formlega lokið vegna kórónuveirunnar. Í dag tilkynnti svo norska sambandið hvaða lið falla og hvaða lið fara upp um deild en gengið var ansi illa fram hjá Volda sem var í þriðja sæti B-deildarinnar þegar liðið átti einn leik eftir af tímabilinu.

Þriðja sæti norsku B-deildarinnar er undir venjulegum kringumstæðum umspilssæti og mætir liðið í þriðja sæti B-deildarinnar venjulega liðinu sem endar í þriðja neðsta sæti úrvalsdeildarinnar. Norska handknattleikssambandið ákvað hins vegar að reikna stigafjölda liðanna og deila honum svo með spiluðum leikjum liðanna þegar ákveðið var hvaða lið myndu falla og fara upp um deild.

Þar stóð Rælingen, sem var í fjórða sæti B-deildarinnar, betur að vígi en Volda. Rælingen hafði spilað 20 leiki og átti því tvo leiki eftir af tímabilinu. Rælingen var með 28 stig en Volda 29 stig og því var ákveðið að Rælingen færi upp um deild á kostnað Volda. Samkvæmt fréttum í Noregi ætla forráðamenn Volda sér að kæra úrskurð norska handknattleikssambandsins en þeir eru skiljanlega mjög ósáttir við ákvörðun sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert