Gríðarlegur liðsauki til ÍBV

Birna Berg Haraldsdóttir í landsleik.
Birna Berg Haraldsdóttir í landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvennalið ÍBV í handknattleik hefur fengið gríðarlegan styrk fyrir næsta keppnistímabil því landsliðskonan Birna Berg Haraldsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið.

ÍBV greinir frá þessu á heimasíðu sinni en hún kemur til Vestmannaeyja í sumar frá Neckarsulmer í Þýskalandi þar sem hún hefur verið í stóru hlutverki.

Birna er 26 ára gömul örvhent skytta, og var á sínum tíma einn efnilegasti knattspyrnumarkvörður landsins þar sem hún spilaði kornung með FH. Birna lék með Fram í handboltanum en hefur verið í atvinnumennsku frá árinu 2013 og spilað með Sävehof í Svíþjóð, Glassverket í Noregi, Aarhus United í Danmörku og nú síðast Neckarsulmer.

Birna hefur leikið 58 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim 118 mörk. 

ÍBV hefur þar með heldur betur styrkt lið sitt síðustu daga en Sandra Erlingsdóttir hefur einnig samið við félagið fyrir næsta tímabil þar sem hún snýr aftur til Eyja frá Val.

Birna Berg hefur áður verið í Vestmannaeyjum því hún varði mark knattspyrnuliðs félagsins árið 2011, þá 18 ára gömul, og spilaði alla 18 leiki liðsins í úrvalsdeildinni á því keppnistímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert