Fimm leikmenn til Aftureldingar?

Blær Hinriksson
Blær Hinriksson mbl.is/Hari

Handknattleiksmennirnir Blær Hinriksson og Úlfar Páll Monsi Þórðarson eru sagðir hafa skrifað undir samninga við Aftureldingu um að leika með liðinu á næsta keppnistímabili í Olís-deildinni í handknattleik. 

Fullyrt var í kvöldfréttum Stöðvar 2 að þeir hefðu skrifað undir hjá Aftureldingu en Blær er lykilmaður hjá HK og Úlfar leikur með Stjörnunni. 

Fyrr í vikunni var greint frá því á Stöð 2 að Sveinn Andri Sveinsson, Bergvin Þór Gíslason og Þrándur Gíslason Roth muni ganga til liðs við Aftureldingu frá ÍR. 

Afturelding hefur ekkert sent frá sér varðandi þessa fimm leikmenn en síðustu vikurnar hafa þeir Blær og Þrándur verið orðaðir við Aftureldingu en Þrándur lék áður í Mosfellsbænum. 

mbl.is