Þetta var ormagryfja full af kórónuveirum

Bjarte Myrhol í landsleik með Noregi.
Bjarte Myrhol í landsleik með Noregi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Norski handknattleiksmaðurinn Bjarte Myrhol segir að hann og fjölskylda sín hafi ekki haft hugmynd um að þau væru á leiðinni í sannkallaða ormagryfju fulla af kórónuveirum þegar þau brugðu sér í heimsókn til Þýskalands til þess að hitta gamla samherja hjá Rhein-Neckar Löwen.

Myrhol, sem leikur með Skjern í Danmörku, er með kórónuveiruna, sem og Charlotte eiginkona hans og börn þeirra. Hann er hinsvegar sá eini þeirra sem hefur veikst að ráði.

„Já, þetta stemmir allt, ég er á mínum sjötta eða sjöunda degi í veikindunum," sagði Myrhol í hlaðvarpsviðtali hjá norska handknattleikssambandinu og segir þetta sé eins og um langdregna flensu væri að ræða.

„Það er er öðruvísi hvað sjálfan mig varðar er að þetta gengur í bylgjum. Mér finnst ég vera frískur inn á milli en svo steinliggur maður í sófanum á ný tveimur tímum síðar. Óvissan varðandi þessa veiru er verst. Ég er ekki vanur að hafa þungar áhyggjur af neinu en hef samt vaknað á nóttunni og hugsað. Hvað gerist næst, hvernig verða einkennin, hvenær næ ég mér? Þegar maður fer að hugleiða á þennan hátt er það ekki jákvætt. Þetta er svo alvarlegur sjúkdómur að það reynir á þegar maður veit ekki við hverju er að búast," sagði Myrhol.

Hann veiktist í heimsókn til gamalla liðsfélaga hjá Rhein-Neckar Löwen fyrir skömmu en þar hefur kórónuveiran einmitt geisað að undanförnu og margir leikmanna liðsins veiktust. Sú ferð var bókuð löngu fyrirfram og farin áður en kom til ferðatakmarkana í Þýskalandi. Þau fóru mjög varlega að öllu leyti.

„En við höfðum ekki hugmynd um að við værum á leið í ormagryfju fulla af kórónuveirum. Fyrst var Mads Mensah greindur með veiruna og þá ákváðum við að drífa okkur heim," sagði Myrhol en á heimleiðinni bárust þær fréttir að fimm til sex leikmenn í viðbót væru smitaðir.

„Þeir sem ég hafði hitt voru greindir jákvæðir, ýmist veikir eða með einkenni, svo það er ekki erfitt að átta sig á hvaðan smitið kom," sagði Myrhol og upplýsti að Charlotte eiginkona hans hefði fengið mjög væg einkenni og börnin væru einkennalaus. „Það er bara ég sem hef legið í rúminu með hita," sagði norski landsliðsmaðurinn sem áður hefur hrist af sér krabbamein og komist aftur á völlinn að því loknu.

mbl.is