Jón Gunnlaugur ráðinn til Víkings

Andri Berg Haraldsson og Jón Gunnlaugur Viggósson stýra Víkingi frá …
Andri Berg Haraldsson og Jón Gunnlaugur Viggósson stýra Víkingi frá og með næsta tímabili. Ljósmynd/Víkingur

Handknattleiksdeild Víkings hefur samið við Jón Gunnlaug Viggósson og mun hann þjálfa meistaraflokk karla til ársins 2023. Þá hefur félagið ráðið Andra Berg Haraldsson sem aðstoðarþjálfara. Í þjálfarateyminu verður einnig Guðjón Örn Ingólfsson styrktarþjálfari. 

Jón Gunnlaugur tekur við af Gunnari Gunnarssyni sem hefur þjálfað liðið undanfarin fimm ár. Jón Gunnlaugur, oftast kallaður Gulli, er íþróttafræðingur að mennt. Þá er hann með Master Coach-þjálfaragráðu frá Handknattleikssambandi Evrópu, sem er æðsta þjálfara gráða sem hægt er að hljóta. Áður hefur hann m.a. þjálfað kvennalið FH og ÍBV og karlalið HK, ásamt yngri landsliðum Íslands.

Hann kom inn í handknattleiksstarf Víkings á síðasta ári er hann tók við sem þjálfari 3. flokks karla og yfirþjálfari yngri flokka. Jón Gunnlaugur er sonur Viggós Sigurðssonar, sem lék á árum áður með Víkingi og þjálfaði íslenska landsliðið. Afi hans, Sigurður Jónsson, lék einnig með félaginu og var formaður HSÍ í áraraðir. 

„Öflug stjórn bæði hjá meistaraflokki og barna- og unglingaráði ásamt öflugum kjarna af leikmönnum sem eru að koma upp og sem fyrir eru hjá liðinu er góð uppskrift. Ég þori að fullyrða að handknattleiksdeildin hafi sjaldan verið á jafn góðum stað og hún er núna og því heiður að taka við starfinu hjá uppeldisfélaginu mínu og byggja ofan á það góða starf sem Gunni hefur stýrt undanfarin ár,“ er haft eftir Jóni í tilkynningu sem félagið sendi frá sér. Hana má sjá í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert