Landsliðsþjálfarinn áfram í Þýskalandi

Guðmundur Þórður Guðmundsson verður áfram í Þýskalandi á næstu leiktíð.
Guðmundur Þórður Guðmundsson verður áfram í Þýskalandi á næstu leiktíð. mbl.is/RAX

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, hefur framlengt samning sinn við þýska 1. deildarfélagið Melsungen en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Guðmundur var ráðinn þjálfari liðsins í lok febrúar á þessu ári og skrifaði þá undir samning sem gilti út tímabilið í Þýskalandi. 

Allur handbolti í Þýskalandi liggur niðri í dag vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina en Guðmundur stýrði sinni fyrstu æfingu hjá Melsungen 28. febrúar síðastliðinn. Hann stýrði liðinu aðeins í tveimur leikjum liðsins, gegn Flensburg og Wetzlar, áður en öllum leikjum var frestað vegna veirunnar.

„Þetta er fyrst og fremst sigur fyrir félagið að fá þjálfara eins og Guðmund til starfa,“ segir á heimasíðu Melsungen. „Hann er með frábært orðspor í handboltaheiminum og gríðarlega reynslu. Hann passar vel inn í allt það sem við erum að reyna afreka hér hjá félaginu og blandan er fullkominn,“ segir enn fremur á heimasíðu Melsungen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert