Tekur aftur við Gróttu

Kári Garðarsson skrifaði undir þriggja ára samning við Gróttu í …
Kári Garðarsson skrifaði undir þriggja ára samning við Gróttu í dag. mbl.is/Hari

Kári Garðarsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Gróttu í handknattleik en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag.

Grótta leikur í 1. deildinni en Kári skrifaði undir þriggja ára samning við Seltirninga. Hann tekur við þjálfarastöðunni af þeim Davíð Erni Hlöðverssyni og Arnari Jóni Agnarssyni sem hafa stýrt liðinu undanfarin tvö ár.

Kári stýrði liði Fjölnis í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en Grafarvogsliðið féll úr deildinni í vetur. Þjálfarinn þekkir vel til á Seltjarnarnesi en hann hefur stýrt bæði karla- og kvennaliði félagsins á undanförnum árum. Undir stjórn Kára varð kvennalið Gróttu tvívegis Íslandsmeistari á árunum 2013 til ársins 2017.

Með ráðningu Kára er fram haldið þeirri stefnu sem unnið hefur verið að í handboltanum á Seltjarnarnesi en Kára er ætlað að taka næsta skref í því að koma kvennaliði félagsins aftur í efstu deild og í fremstu röð á næstu árum,“ segir meðal annars í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag.

Kári hefur starfað á skrifstofu félagsins um nokkura ára skeið og er framkvæmdastjóri Gróttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert