Leikmenn og þjálfarar HK afþakka laun

HK var í baráttu um sæti í úrslitakeppninni í kvennaflokki.
HK var í baráttu um sæti í úrslitakeppninni í kvennaflokki. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Handknattleiksdeild HK tilkynnti í kvöld að leikmenn og þjálfarar meistaraflokka félagsins myndu ekki þiggja laun það sem eftir lifir tímabilsins vegna áhrifa kórónuveirunnar á fjárhag félagsins. 

HK var með lið í efstu deildum karla og kvenna í vetur, en karlaliðið féll úr Olísdeildinni á meðan kvennaliðið var í baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Ekki tókst að klára keppni í deildunum vegna veirunnar. 

Tilkynning handknattleiksdeildar HK

Sem heild stöndum við sterkari.

Á þessum erfiðu tímum er nauðsynlegt að vinna vel saman við að finna lausnir á þeim vandamálum sem koma upp í okkar starfi. Nú stöndum við frammi fyrir heimsfaraldri sem hefur áhrif á alla heimsbyggðina og því ekkert sem við getum annað en tæklað þetta vandamál með jákvæðni og von um betri tíma að leiðarljósi.

Í þessum erfiðu aðstæðum hafa leikmenn og þjálfarar í meistaraflokki HK ákveðið að þiggja ekki sín laun það sem eftir lifir þessa keppnistímabils. Það er ljóst að svona niðurstaða verður ekki til nema með skilningi, samkennd og samvinnu.

Handknattleiksdeild HK er gríðarlega stolt af sínum þjálfurum og leikmönnum fyrir að fara þessa leið og er ég sem formaður deildarinnar hrærður yfir þessari samvinnu og jákvæðni sem allir hafa sýnt félaginu. Saman stöndum við sterkari, hugsum vel hvert um annað og horfum jákvætt til næsta vetrar.

Áfram HK,
Brynjar F. Valsteinsson,
formaður handknattleiksdeildar HK.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman