Breytingar á þjálfarateyminu

Jónatan Magnússon og Sverre Andreas Jakobsson.
Jónatan Magnússon og Sverre Andreas Jakobsson. Ljósmynd/KA

Breytingar hafa orðið á þjálfarateymi KA í handknattleik karla en Jónatan Magnússon verður einn aðalþjálfari liðsins og honum til aðstoðar verður Sverre Andreas Jakobsson, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Þeir Jónatan og Stefán Árnason þjálfuðu saman liðið í vetur en Stefán, sem tók við liðinu 2017, hefur stigið til hliðar. Hann verður áfram yfir afreksstarfi handknattleiksdeildar félagsins en Sverre, sem hefur þjálfað ungmennalið KA, stígur nú upp í meistaraflokk.

Sverre lék um árabil með landsliðinu, var m.a. í silfurliðinu á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsliðinu á EM í Austurríki 2010. Hann lék lengi í Þýskalandi með Gummersbach og Grosswallstadt en einnig með KA, Akureyri, HK, Fram og Aftureldingu. Hann þjálfaði lið Akureyrar í þrjú ár en hefur síðan starfað hjá KA.

Frek­ari keppni á Íslands­mót­inu var aflýst vegna kórónuveirunnar en KA var í 10. sæti eftir 20 umferðir með 11 stig.

mbl.is