Fá ekkert þótt þeir hafi verið á toppnum

Stefán Rafn Sigurmannsson er leikmaður Pick Szeged.
Stefán Rafn Sigurmannsson er leikmaður Pick Szeged. mbl.is/Hari

Stefán Rafn Sigurmannsson og samherjar í Pick Szeged fá ekki viðurkenningu fyrir að hafa verið efstir í deildinni í Ungverjalandi þegar handknattleikssambandið þar ákvað að aflýsa deildakeppninni 2019-20 vegna kórónuveirunnar.

Þeir voru jafnir erkifjendunum í Veszprém á toppnum og voru fyrir ofan á markatölu en höfðu leikið einum leik meira.

Ákveðið var að lokastaðan hefði ekkert vægi, ekkert lið myndi falla og lið myndu komast í Evrópukeppni samkvæmt niðurstöðu 2018-19-tímabilsins. Samkvæmt því fær Veszprém sæti í Meistaradeild Evrópu en Pick Szeged þarf að treysta á að fá svokallað „wildcard“ í keppnina, eða fara í nýju Evrópudeildina.

mbl.is