Fyrirliðinn tekur við KA/Þór

Andri Snær Stefánsson er orðinn þjálfari KA/Þórs.
Andri Snær Stefánsson er orðinn þjálfari KA/Þórs. Ljósmynd/KA/Þór

Handknattleiksdeild KA/Þórs réð í dag Andra Snæ Stefánsson sem þjálfara meistaraflokks kvenna og mun hann því taka að sér stjórn liðsins fyrir komandi handboltavetur. Tekur hann við af Gunnari Líndal Sigurðssyni. 

KA/Þór fór alla leið í bikarúrslit í vetur þar sem liðið tapaði fyrir Fram. Þá var liðið í sjötta sæti Olísdeildarinnar með 14 stig eftir 18 leiki þegar tímabilinu var aflýst. 

Andri Snær, sem hefur verið fyrirliði karlaliðs KA undanfarin ár, byrjaði snemma í þjálfun og hefur síðustu þrjú ár stýrt ungmennaliði KA sem vann sigur í 2. deildinni veturinn 2018-2019 og festi sig í sessi í 1. deildinni á nýliðnum vetri. Samningur Andra við KA/Þór er til tveggja ára.

„Það er ekki nokkur spurning að það er spennandi vetur framundan hjá kvennaliði KA/Þórs en á dögunum skrifaði landsliðskonan Rut Arnfjörð Jónsdóttir undir tveggja ára samning við liðið.

Á sama tíma og við bjóðum Andra velkominn til starfa hjá KA/Þór þökkum við Gunnari Líndal Sigurðssyni fyrir hans störf með liðið á nýliðnum vetri,“ segir í yfirlýsingu félagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert