Ungverskur markvörður í Val

Daniel Nagy.
Daniel Nagy. Ljósmynd/Valur Handbolti

Handknattleiksdeild Vals hefur fengið ungverska markvörðinn Martin Nagy að láni frá stórliði Pick Szeged sem íslenski landsliðsmaðurinn Stefán Rafn Sigurmannsson spilar með. Valsarar staðfestu þessar fregnir á Facebook-síðu sinni í dag.

Nagy er 21 árs gamall en hann hefur verið fastamaður í öllum yngri landsliðum Ungverja og þriðji markvörður Pick Szeged á eftir þeim Roland Mikeler og Mirko Alilovic. Martin er hávaxinn enda rúmlega tveir metrar. Valsarar urðu deildarmeistarar á síðasta tímabili en tímabilið var flautað af vegna kórónuveirufaraldursins áður en úrslitakeppnin gat farið fram.

Þeir Daníel Freyr Andrésson og Hreiðar Levy Guðmundsson vörðu mark Valsara á síðustu leiktíð en Daníel Freyr hefur samið við sænska úrvalsdeildarfélagið Guif frá Eskilstuna og heldur út í sumar.

mbl.is