Lúxuslíf að vera atvinnumaður í handbolta

Arnar Birkir Hálfdánsson
Arnar Birkir Hálfdánsson mbl.is/Hari

Það hefur komið handknattleikskappanum Arnari Birki Hálfdánssyni á óvart hversu mikið lúxuslíf það er að vera atvinnumaður í íþróttinni.

Arnar Birkir, sem er 26 ára, gekk til liðs við danska úrvalsdeildarfélagið SönderjyskE frá Fram sumarið 2018, en eftir tvö ár í Danmörku hefur hægri skyttan ákveðið að söðla um.

Hann skrifaði undir samning við þýska B-deildarfélagið Aue og verður hann sjöundi íslenski leikmaðurinn sem skrifar undir leikmannasamning við félagið en fyrrverandi landsliðsmaðurinn Rúnar Sigtryggsson þjálfaði liðið á árunum 2012 til ársins 2016.

„Það eru tæpar tvær vikur síðan ég skrifaði undir samning við Aue og ég reikna með því að þetta verði staðfest á morgun (í dag),“ sagði Arnar Birkir í samtali við Morgunblaðið í gær. „Það er eitthvað síðan ég frétti fyrst af áhuga þýska liðsins. Þeir voru búnir að vera á eftir mér í einhvern tíma og aðdragandinn var kannski aðeins lengri fyrir þá heldur en mig. Þeir höfðu fyrst samband við mig í byrjun árs, áður en kórónuveirufaraldurinn blossaði upp í Evrópu, en á þeim tímapunkti var ég með nokkur tilboð á borðinu.

Möguleikum mínum fækkaði svo umtalsvert eftir að faraldurinn fór yfir Evrópu. Þetta var skrítinn tími og það voru einhver lið sem dæmi sem tjáðu mér að þau vildu áfram fá mig en gætu ekki boðið mér samning fyrr en í fyrsta lagi eftir tvo mánuði. Svo fylgdi það oft sögunni líka að þetta gæti jafnvel tekið lengri tíma en tvo mánuði, ef af þessu yrði þá. Aue var hins vegar skýrt við mig allan tímann, þeir vildu fá mig og lögðu mikla áherslu á það, og þess vegna ákvað ég að skrifa undir þar.“

Kveikjan að áhuga Aue

Arnar Birkir er uppalinn hjá Fram í Safamýrinni en hann hefur einnig leikið með FH og ÍR hér á landi. Hann hefur spilað mjög vel með SönderjyskE, undanfarin tvö tímabil, og skoraði meðal annars 51 mark í dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

„Ég get ekki sagt að atvinnumennskan hafi komið mér mikið á óvart ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Það er skrítið að segja það en ég held að ég hafi æft jafn mikið, ef ekki meira bara, þegar ég var leikmaður Fram á Íslandi heldur en í Danmörku. Ég hef hins vegar reynt að æfa eins mikið aukalega og ég get hérna úti, þegar ég hef haft orku til þess.

Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu mikið lúxuslíf þetta er. Danska deildin er klárlega sterkari en sú íslenska, á því leikur enginn vafi. Það eru margir frábærir leikmenn sem spila í deildinni og gæðin á æfingum eru mikil.“

Viðtalið í heild má lesa í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert