Þórir loks að framlengja við Noreg

Þórir Hergeirsson
Þórir Hergeirsson AFP

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson hefur stýrt norska kvennalandsliðinu í handknattleik síðan 2009 og mun hann á næstunni skrifa undir nýjan fjögurra ára samning við norska handknattleikssambandið.

„þetta verður frágengið í náinni framtíð,“ sagði Þórir í viðtali við norska blaðið Verdens Gang í kvöld en áður en hann varð aðalþjálfari var hann aðstoðarmaður Marit Breivik hjá landsliðinu í átta ár eða frá árinu 2001. Hann hefur átt í samningsviðræðum við sambandið í rúmt ár en núverandi samningur hans rennur út um áramótin. Skrifi hann undir nýjan samning mun hann gilda fram yfir Ólympíuleikana í París 2024.

Ólympíuleikunum í Tókýó hefur verið frestað til næsta árs en Þórir er fullviss um að EM fari fram í Noregi og Danmörku í desember. Norska liðið mun þar spila alla sína leiki heima, eins langt og það kemst, en úrslitaleikurinn fer fram í Bærum.

„Það skiptir miklu máli að haga öllum okkar undirbúning á þann veg að mótið fari fram, við getum ekkert hikað með það. Við undirbúum okkur fyrir Evrópumeistaramótið,“ sagði Þórir.

Und­ir stjórn Þóris hef­ur norska kvenna­landsliðið unnið til níu verðlauna á tólf stór­mót­um og þar af hafa Norðmenn unnið þrjá Evr­ópu­meist­ara­titla, tvo heims­meist­ara­titla og ólymp­íu­meist­ara­titil­inn einu sinni. Á heimsmeistaramótinu sem haldið var í Japan í desember höfnuðu Norðmenn í fjórða sæti.

mbl.is