Gamla ljósmyndin: Mulningsvélin mallar

Morgunblaðið/Kristján Einarsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Karlalið Vals í handknattleik á árunum í kringum 1980 er goðsagnakennt í íslensku íþróttalífi enda fékk liðið skemmtilegt gælunafn sem festist all rækilega. Liðið er alla jafna kallað: Mulningsvélin. 

Árið 1980 náði Valsliðið þeim magnaða árangri að komast í úrslitaleikinn í Evrópukeppni meistaraliða. Þá mátti liðið sætta sig við tap gegn þýska liðinu Grosswallstadt 21:12 í Ólympíuhöllinni í München en margir töldu á þeim tíma að Grosswallstadt væri einfaldlega sterkasta lið Evrópu. 

Til að komast í úrslitaleikinn þarf að leggja sterk lið að velli og það gerðu íslensku áhugamennirnir. Rimman gegn Atlético Madríd í undanúrslitum er eftirminnileg fyrir Valsmenn. Spænska liðið vann fyrri leikinn í Madríd 24:21 en Valur snéri dæminu við í síðari leiknum í troðfullri Laugardalshöllinni og vann 18:15.

„Ég er búinn að starfa hér í Laugardalshöllinni síðan hún var opnuð og hef aldrei orðið vitni að annarri eins stemningu og var í kvöld,“ sagði Steindór Guðmundsson starfsmaður hallarinnar við Morgunblaðið.   

Ólafur Benediktsson átti stórleik í marki Vals og fyrirliðinn Stefán Gunnarsson skoraði síðasta mark Vals í leiknum og þar með sigurmarkið en hann kom Val í 18:14. „Ég hugsaði um það eitt að sækja á markið, og þegar ég fann að það var ekki ströng gæsla á mér, lyfti ég mér upp og skaut eins fast og ég gat.“ Þannig lýsti Stefán augnablikinu í samtali við Morgunblaðið að leiknum loknum.  

Á meðfylgjandi mynd sést Stefán fagna sigrinum gegn Atlético Madríd ásamt stuðningsmönnum Vals á fjölum Laugardalshallarinnar. Á myndinni sjást einnig Þorbjörn Guðmundsson, Gunnar Lúðvíksson og Steindór Gunnarsson. Myndina tók Kristján Einarsson og birtist hún í Morgunblaðinu hinn 11. mars 1980. 

Afrek Valsmanna er einstakt í íslenskri íþróttasögu því þetta er í eina skiptið sem íslenskt félagslið hefur leikið til úrslita í Evrópukeppni í boltagrein. 

Arkítektinn að liðinu sem fékk nafnið Mulningsvélin er talinn vera Reynir Ólafsson eins og fram kemur í grein í Morgunblaðinu á 100 ára afmæli Vals árið 2011. Hann tók við þjálfun liðsins árið 1970 og lagði mikla áherslu á að bæta vörn liðsins. Það tókst svo um munaði en áratug seinna þóttu Valsmenn sérlega harðir í horn að taka í vörninni. Þegar Valur lék til úrslita árið 1980 var Hilmar Björnsson þjálfari liðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert