Fer beint frá Selfossi í Meistaradeildina

Haukur Þrastarson er þegar kominn í Meistaradeildina á sínu fyrsta …
Haukur Þrastarson er þegar kominn í Meistaradeildina á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrjú Íslendingafélög eru í hópi þeirra tíu liða sem hafa fengið staðfest sæti í riðlakeppni Meistaradeildar karla í handknattleik næsta vetur, 2020-21.

Það eru Aron Pálmarsson og samherjar í Barcelona, danska liðið Aalborg þar sem Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari og svo pólsku meistararnir Kielce sem fá Sigvalda Björn Guðjónsson og Hauk Þrastarson til liðs við sig í sumar. Sigvaldi kemur þangað frá Elverum í Noregi og landsliðsmaðurinn ungi Haukur beint frá Selfyssingum.

Hin sjö liðin eru Kiel og Flensburg frá Þýskalandi, París SG frá Frakklandi, Zagreb frá Króatíu, Veszprém frá Ungverjalandi, Vardar Skopje frá Makedóníu og Porto frá Portúgal.

Sex liðum verður bætt við deildina í næstu viku en fjórtán koma til greina. Í þeim hópi eru Pick Szeged frá Ungverjalandi sem Stefán Rafn Sigurmannsson leikur með, GOG frá Danmörku sem Viktor Gísli Hallgrímsson leikur með og Kadetten Schaffhausen frá Sviss en nýr þjálfari liðsins er Aðalsteinn Eyjólfsson.

Hin liðin sem koma til greina í þessi sex sæti eru Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi, Dinamo Búkaraest frá Rúmeníu, Besiktas frá Tyrklandi, Elverum frá Noregi, Celje Lasko frá Slóveníu, Motor Zaporozhye frá Úkraínu, Ademar León frá Spáni, Wisla Plock frá Póllandi, Nantes frá Frakklandi, Pelister frá Makedóníu og Sporting frá Portúgal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert