Bæta tveimur leikmönnum við hópinn

Lara Zidek og Ivana Raickovic.
Lara Zidek og Ivana Raickovic. Ljósmynd/Selfoss

Handknattleiksdeild Selfoss hefur samið við tvo erlenda leikmenn. Þær heita Ivana Raičković og Lara Zidek og koma báðar frá Førde IL í Noregi.

Ivana er 19 ára gömul og kemur frá Svartfjallalandi. Hún er efnilegur línumaður sem hefur verið viðloðandi U-21 landslið Svartfellinga. Lara er 23 ára gömul skytta frá Króatíu en hún getur leyst allar stöðurnar fyrir utan samkvæmt fréttatilkynningunni frá Selfyssingum. 

Selfoss leikur í næstefstu deild en liðið var nálægt því að komast upp í efstu deild á síðasta Íslandsmóti. Miðað við þessi tíðindi virðist liðið til alls líklegt næsta vetur. 

mbl.is