„Hafa orðið betri og betri“

Arnór Þór Gunnarsson í leiknum gegn Portúgal í Laugardalshöll í …
Arnór Þór Gunnarsson í leiknum gegn Portúgal í Laugardalshöll í júní 2016. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Þór Gunnarsson, hægri hornamaður landsliðsins í handknattleik, segir leikina gegn Portúgal og Litháen geta orðið erfiða í undankeppni EM karla 2020 en dregið var til undankeppninnar í dag. 

 „Þetta gætu orðið hörkuleikir gegn Portúgal og Litháen en ég get ekki dæmt um Ísrael þar sem það eru liðin fimm ár frá því við mættum þeim síðast,“ sagði Arnór þegar mbl.is hafði samband við hann. 

„Fyrir utan það að hafa mætt Portúgal á EM í vetur þá mættum við Portúgal fyrir fjórum árum síðan í undankeppni HM. Þá áttum við hörkuleik við þá á Íslandi og leikurinn úti var mjög jafn. Portúgal er bara með hörkulið og sýndu það á EM. Síðustu ár hafa þeir orðið betri og betri,“ sagði Arnór en einnig er stutt síðan Ísland var með Litháen í undankeppni HM en það var fyrir tveimur árum. 

„Litháen má ekki vanmeta. Við fengum að finna fyrir því síðast að þeir eru með gott lið. Þá varð jafntefli úti og við unnum með þriggja marka mun heima,“ sagði Arnór en einnig er rætt við hann í Morgunblaðinu sem kemur út í fyrramálið. 

mbl.is