Ísland í riðli með Portúgal

Aron Pálmarsson, einn reyndasti leikmaður landsliðsins.
Aron Pálmarsson, einn reyndasti leikmaður landsliðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland verður í riðli með Portúgal í undankeppninni fyrir EM karla í handknattleik árið 2022 en dregið var í dag.

Ísland er einnig í riðli með Litháen og Ísrael. Tvö efstu liðin komast í lokakeppnina í Ungverjalandi og Slóvakíu, og einnig þau fjögur lið af átta sem verða með bestan árangur í þriðja sæti.

Segja má að Portúgal sé sterkasta eða eitt allra sterkasta liðið úr öðrum styrkleikaflokki. Liðin mættust í milliriðli á EM í janúar og hafði Ísland betur 28:25. Ísland var auk þess með Portúgal í undankeppni HM 2017 og mættust liðin tvisvar í júní 2016. Ísland vann 26:23 og Portúgal vann 21:20 ytra. 

Ísland mætti Litháen í undankeppni HM 2019. Litháen var í þriðja styrkleikaflokki. Leikirnir fóru fram fyrir tveimur árum eða í júní 2018. Ísland komst áfram 61:58 en leiknum í Vilnius lauk með jafntefli. 

Ísrael var í fjórða styrkleikaflokki. Langt ferðalag fyrir okkar menn í því tilfelli en lið sem ekki er með mikla handboltahefð. Ísland var með Ísrael í riðli fyrir EM 2016. Ísland vann 36:19 í Laugardalshöll og 34:24 í Tel Aviv sumarið 2015. 

Lokakeppnin verður í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar 2022 og Ísland á góða möguleika á að vinna sér keppnisrétt í lokakeppninni enda var íslenska liðið í fyrsta styrkleikaflokki þegar dregið var til undankeppninnar. 

Undankeppnin mun hefjast 4. og 5. nóvember á þessu ári og lýkur 2. maí á næsta ári. 

Riðlarnir eru þannig skipaðir:

1. riðill: Frakkland, Serbía, Belgía og Grikkland.

2. riðill: Þýskaland, Austurríki, Bosnía og Eistland.

3. riðill: Tékkland, Rússland, Úkraína og Færeyjar.

4. riðill: Ísland, Portúgal, Litháen og Ísrael.

5. riðill: Slóvenía, Holland, Pólland og Tyrkland.

6. riðill: Noregur, Hvíta-Rússland, Lettland og Ítalía.

7. riðill: Danmörk, Norður-Makedónía, Sviss og Finnland.

8. riðill: Svíþjóð, Svartfjallaland, Rúmenía og Kósóvó.

Spánn og Króatía, tvö efstu lið síðustu Evrópukeppni, fara beint í lokakeppnina, ásamt gestgjöfunum, Ungverjalandi og Slóvakíu.

mbl.is