Íslendingaliðið komið í mikil fjárhagsvandræði

Sigvaldi Björn Guðjónsson er genginn til liðs við Kielce.
Sigvaldi Björn Guðjónsson er genginn til liðs við Kielce. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Pólska meistaraliðið í handknattleik, Kielce, er komið í mikil fjárhagsvandræði eftir að aðalstyrktaraðili þess um langt árabil, Vive, ákvað að hætta stuðningi við það frá og með 1. júlí.

Kielce hefur verið eitt besta lið Evrópu um árabil og varð Evrópumeistari árið 2016. Íslensku landsliðsmennirnir Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson eru að ganga til liðs við félagið í sumar en nú er mikil óvissa um stöðu mála hjá því. 

Forseti Kielce er jafnframt forseti Vive og hann skýrði frá því á Twitter að því miður væri þetta staðan en hann myndi halda áfram að starfa fyrir Kielce af fullum krafti. Vive er í fjárhagserfiðleikum vegna kórónuveirunnar og þurfti að hætta stuðningi sínum við félagið af þeim sökum.

Á fréttamannafundi í dag var tilkynnt að Kielce þyrfti 2,5 milljón pólsk slotí, eða um 85 milljónir íslenskra króna, til að brúa bilið og hrundið hefði verið af stað söfnun sem þyrfti að skila þessari upphæð á næstu tveimur mánuðum til að hægt væri að standa við skuldbindingar.

Andreas Wolff markvörður og fyrirliði Kielce sagði á fundinum að mikil samstaða væri meðal leikmanna liðsins sem vildu vera áfram í röðum Kielce, og hefur mikla trú á að söfnunin muni skila tilætluðum árangri.

„Við elskum allir að spila hér. Kielce er með ótrúlegt stuðningsfólk og á öllum heimaleikjum er höllin nánast logandi. Ég fullyrði að hér eru einhverjir bestu áhorfendur heims, allavega í handboltanum. Ég er sannfærður um að við munum allir leggja allt í sögur fyrir félagið, munum  berjast fyrir það áfram og þá er framtíðin björt," sagði Wolff á fundinum.

Hann sagði ennfremur að leikmenn myndu bíða þolinmóðir eftir útkomu söfnunarinnar og kvaðst viss um að það yrði þess virði.

mbl.is