Portúgalar og Litháar hafa reynst okkar liði erfiðir

Janus Daði Smárason gegn Portúgölum á EM í Malmö í …
Janus Daði Smárason gegn Portúgölum á EM í Malmö í janúar. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Ísland verður í riðli með Portúgal, Litháen og Ísrael í undankeppni EM karla í handknattleik árið 2022 en dregið var í gær. Tvö efstu liðin komast í lokakeppnina í Ungverjalandi og Slóvakíu, og einnig þau fjögur lið af átta sem verða með bestan árangur í þriðja sæti.

Segja má að Portúgal sé sterkasta eða eitt allra sterkasta liðið úr öðrum styrkleikaflokki. Liðin mættust í milliriðli á EM í janúar og hafði Ísland betur 28:25. Ísland var auk þess með Portúgal í undankeppni HM 2017 og mættust liðin tvisvar í júní 2016. Ísland vann 26:23 og Portúgal vann 21:20 ytra. Portúgalar verða með í forkeppni Ólympíuleikanna eftir góðan árangur á EM.

„Portúgalar eru bara með hörkulið og sýndu það á EM. Síðustu ár hafa þeir orðið betri og betri. U21 árs lið þeirra var mjög gott í fyrra og strákarnir úr því liði eru einnig að bætast við hópinn hjá þeim. Portúgalar eru bara orðnir firnasterkir og eru erfiður andstæðingur,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson, hægri hornamaður í landsliðinu, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans en Arnór hefur mætt þessum þremur þjóðum sem um ræðir á síðustu árum. „Á sínum tíma fóru sænskir þjálfarar til Portúgals og þeir tóku þátt í uppbyggingunni. Það kemur mér því ekki á óvart að þeir hafi búið til efnilega leikmenn sem séu orðnir góðir. Þeir hafa greinilega gert þetta vel og vinnubrögðin í föstum skorðum.“

Jafnir leikir gegn Litháum

Litháen er í þriðja styrkleikaflokki en Ísland mætti Litháen í undankeppni HM 2019. Leikirnir fóru fram fyrir tveimur árum eða í júní 2018. Ísland komst áfram 61:58 en leiknum í Vilnius lauk með jafntefli. Litháa skyldi því ekki vanmeta en hér má rifja upp til gamans að Miglius Astrauskas, fyrrverandi þjálfari HK, var þá í þjálfarateyminu hjá Litháen.

„Við fengum að finna fyrir því síðast að þeir eru með gott lið. Þetta voru tveir hörkuleikir og þeir eru ekki auðveldir. Miðjumaðurinn hjá Litháen [Aidenas Malasinkas] er mjög góður og frábær í stöðunni einn á móti einum. Mig minnir að hann spili með Zaporzhye [í Úkraínu]. Þeir voru einnig með risa á línunni sem erfitt var að eiga við,“ sagði Arnór.

Umfjöllunina um Ísland í undankeppni EM í handknattleik 2022 má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert