Íslendingalið fær sæti í Meistaradeildinni

Stefán Rafn Sigurmannsson leikur í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.
Stefán Rafn Sigurmannsson leikur í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

EHF, Handknattleikssamband Evrópu, tilkynnti í dag hvaða sextán lið spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Sambandið hafði áður tilkynnt tíu lið og nú hafa sex til viðbótar bæst við. Eitt þeirra er Pick Szeged, en Stefán Rafn Sigurmannsson leikur með liðinu. 

Zagreb, Aalborg, Barcelona, PSG, Kiel, Flensburg, Veszprém, Vardar, Kielce og Porto urðu landsmeistarar og fengu því sæti í keppninni. Fjórtán lið til viðbótar sóttu um aukasæti í keppninni og fengu sex þeirra grænt ljós. 

Ásamt Pick Szeged bætast við Brest, Nantes, Elverum, Celje Lasko og Motor. Wisla Plock og Dinamo Búkarest verða til vara ef eitthvert liðanna sextán dregur sig úr keppninni. 

Fjórir Íslendingar leika í deildinni á næstu leiktíð; Aron Pálmarsson leikur með Barcelona, Stefán Rafn Sigurmannsson með Pick Szeged og Haukur Þrastarson og Sigvaldi Björn Guðjónsson með Kielce. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg. 

mbl.is