Í fullu fjöri á fimmtugsaldri

Hanna Guðrún Stefánsdóttir í leik með Stjörnunni.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir í leik með Stjörnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleikskonan Hanna Guðrún Stefánsdóttir hefur framlengt samning sinn við Stjörnuna og mun leika með liðinu næsta vetur. Verður tímabilið það 26. hjá Hönnu í meistaraflokki. 

Hanna, sem er 41 árs, lék sinn fyrsta leik fyrir Hauka tímabilið 1994/95 og skoraði sín fyrstu mörk í meistaraflokki tveimur árum síðar. Hefur hún verið í herbúðum Stjörnunnar frá árinu 2010. Þá hefur hún einnig leikið með Holstebro í Danmörku. Hanna skoraði 42 mörk í tólf leikjum í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. 

Þá hefur Elísabet Gunnarsdóttir sömuleiðis framlengt samning sinn við Stjörnuna um eitt ár. Elísabet skoraði tíu mörk í fimm leikjum með Stjörnunni á síðustu leiktíð en hún hefur einnig leikið með Fram. 

Hafa þær báðar leikið með íslenska landsliðinu og lék Hanna m.a. á öllum þremur stórmótunum sem íslenska liðið tók þátt í á árunum 2010 til 2012.

mbl.is