Markvörðurinn áfram í Eyjum

Petar Jokanovic verður áfram í Vestmannaeyjum.
Petar Jokanovic verður áfram í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/ÍBV

Handknattleiksdeild ÍBV hefur gert nýjan samning við bosníska landsliðsmarkvörðinn Petar Jokanovic, sem varði mark liðsins á síðasta tímabili.

Þetta kemur fram á heimasíðu ÍBV, en þar segir að Jokanovic hafi á köflum varið meistaralega í marki liðsins síðasta vetur og m.a. átt stóran þátt í sigrinum á Stjörnunni í úrslitaleik bikarkeppninnar.

Jokanovic er 29 ára gamall og kom til Vestmannaeyja frá Red Boys Differdange í Lúxemborg fyrir ári en hafði áður spilað með félagsliðum í Rúmeníu og Bosníu.

Hann lék alla 20 leiki ÍBV sem spilaðir voru áður en keppni í úrvalsdeildinni var hætt vegna kórónuveirunnar, og var drjúgur í að kasta boltanum yfir völlinn því hann skoraði átta mörk fyrir liðið í deildinni og var fyrir vikið ellefti markahæsti leikmaður ÍBV á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert