Svíður mjög að Valur sé enn meistari

Ragnheiður Júlíusdóttir er lykilmaður í liði Fram.
Ragnheiður Júlíusdóttir er lykilmaður í liði Fram. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hin 23 ára gamla Ragnheiður Júlíusdóttir hefur síðustu ár verið einn allra besti leikmaður úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Skyttan hefur allan ferilinn leikið með uppeldisfélaginu Fram og þrisvar fagnað Íslandsmeistaratitlinum og tvisvar bikarmeistaratitlinum. Þá hefur hún leikið 25 landsleiki. Landsliðið hefur undanfarnar tæpar þrjár vikur æft saman en liðið leikur í forkeppni HM 2021 í nóvember eða desember. Ísland verður í öðrum styrkleikaflokki af fjórum þegar dregið verður í riðla 8. júlí.

Morgunblaðið ræddi við Ragnheiði fyrir landsliðsæfingu í vikunni og hún viðurkenndi að vera enn svekkt yfir að Fram hafi ekki fengið tækifæri til að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn, en tímabilinu var aflýst vegna kórónuveirunnar áður en úrslitakeppnin fór af stað. Fram varð því að láta sér nægja að verða deildar- og bikarmeistari en Valskonur verða áfram Íslandsmeistarar, þrátt fyrir yfirburði Fram á síðustu leiktíð.

Sennilega svekkt að eilífu

„Ég er enn þá svekkt. Við vorum búnar að standa okkur ótrúlega vel allt tímabilið og vorum flottar í bikarnum. Okkur langaði rosalega að vinna þetta í ár eftir að hafa tapað þessu í fyrra, þess vegna er ég mjög svekkt og verð sennilega svekkt að eilífu. Ég er nokkurn veginn komin yfir þetta, en þetta er samt svekkjandi. Það svíður mjög að Valur sé enn ríkjandi meistari, en það voru tveir titlar í boði í vetur og við tókum þá báða, svo við verðum að byggja á því,“ sagði Ragnhildur.

Segir hún landsliðsæfingarnar hafa verið með rólegu móti til þessa. „Þetta er búið að vera rosalega rólegt, við erum aðeins að slípa okkur saman og fara yfir ákveðnar áherslur og leikskipulag. Það er mjög mikilvægt að koma okkur inn í þessa hluti þar sem það vantar nokkuð marga leikmenn. Það eru nokkrar sem eru annaðhvort alveg nýjar eða nýbyrjaðar í landsliðinu og það er skemmtilegt.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert