Með betri liðum sem við gátum fengið

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. mbl.is/Hari

„Þetta er sennilega með betri liðum sem við gátum fengið en ég gerði mér líka grein fyrir því að við erum í erfiðari keppnum og myndum fá erfiða mótherja,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir að dregið var í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar.

Valsarar mæta þar danska liðinu Holstebro og fer fyrsti leikur liðanna fram í lok ágúst. Holstebro var annað tveggja Íslendingaliða sem Valsarar gátu mætt. Landsliðshornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson leikur með liðinu og þá stýrir landsliðsþjálfarinn Guðmund­ur Þórður Guðmunds­son Melsungen og Arnar Freyr Anarsson spilar með liðinu.

„Ég vildi bara fá Holstebro eða Melsungen. Við erum ekki líklegasta liðið í keppninni en það verður gaman fyrir strákana að sjá hvar topplið á Íslandi stendur gagnvart mjög góðu dönsku liði. Ég held að það verði mjög gaman, ekki bara fyrir Val heldur alla.

Íslandsmótið hefst ekki fyrr en í byrjun september og verða þetta því fyrstu keppnisleikir Valsara í vetur. Snorri segir það óheppilegt en geta að sama skapi verið leikmönnum sínum aukin hvatning á undirbúningstímabilinu.

Valsarar slógu Beykoz frá Tyrklandi út í Áskorendabikarnum í vor.
Valsarar slógu Beykoz frá Tyrklandi út í Áskorendabikarnum í vor. Ljósmynd/Baldur Þorgilsson

„Ég myndi halda að munurinn á deildunum væri töluverður en það kemur í ljós. Það leiðinlega við þetta er kannski að þetta eru fyrstu leikir mótsins og bæði lið væntanlega nokkuð stutt á veg komin í undirbúningi sínum.“

Við byrjuðum nokkuð snemma, allavega hérna heima. Undirbúningstímabilið er yfirleitt ekki skemmtilegasti tíminn, allavega hjá leikmönnum, þannig að þetta gefur þeim vonandi eitthvað auka.“

Þetta eru skrítnir tímar

Fyrirkomulagið á keppninni er með aðeins öðruvísi sniði en áður. Liðunum var raðað í styrk­leika­flokka og svæði til að lækka ferðakostnað fé­laga og forðast óþarfa ferðalög á tím­um kór­ónu­veirunn­ar. Valsarar þurfa því að ferðast tiltölulega stutt til Danmerkur. Þá lauk keppnistímabili Valsara snarlega í vor þegar Evrópska handknattleikssambandið aflýsti Áskorendabikar Evrópu, þar sem Valur var kominn í átta liða úrslit.

„Þetta eru skrítnir tímar og ég geri mér ekki einu sinni grein fyrir því hvort búið er að aflétta þessum takmörkunum í Danmörku, hvort það má hafa áhorfendur til dæmis. Vonandi er þetta bara Covid-vænt ferðalag, ef hægt er að tala um svoleiðis.“

En hvað það varðar að mæta liði sem við hefðum getað unnið, án þess að ég sé búinn að grandskoða þetta, þá er þetta ekkert endilega best fyrir okkur,“ sagði Snorri, sem gerir ráð fyrir því að Óðinn Þór, leikmaður Holstebro, geti hjálpað sínum mönnum að leikgreina Valsarana.

„Hann verður væntanlega í því hlutverki að finna einhver myndbönd af okkur, en það er svo sem heldur ekkert erfitt fyrir mig að hringja til Danmerkur og græja það,“ sagði Snorri Steinn við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina