Fann sér lið fyrir næstu ár

Viggó Kristjánsson
Viggó Kristjánsson Ljósmynd/Ein­ar Ragn­ar Har­alds­son

Handknattleiksmaðurinn Viggó Kristjánsson mun í haust spila með liði Stuttgart í þýsku efstu deildinni en þetta er hans þriðja félag í landinu. Viggó gekk í raðir Leipzig frá West Wien í Austurríki á síðasta ári en eftir aðeins þrettán leiki skipti hann yfir í Wetzlar, þar sem hann kláraði tímabilið. Eða öllu heldur, þangað til tímabilinu var aflýst í apríl vegna kórónuveirunnar.

Það var hins vegar aldrei annað inni í myndinni en að stoppa stutt við hjá Wetzlar á meðan hann leitaði sér að liði til lengri tíma.

Þetta var auðveld ákvörðun

„Þetta kom til í nóvember á síðasta ári, um það leyti sem ég fór til Wetzlar. Ég vissi að það væri bara til loka tímabilsins og ég var að leita að liði fyrir næstu árin. Það er í raun á sama tíma sem ég skrifa undir, hjá Wetzlar út tímabilið og svo hjá Stuttgart næstu tvö árin,“ sagði Viggó í samtali við Morgunblaðið. Hjá liðinu spilar nú þegar annar Íslendingur, Elvar Ásgeirsson. „Hann gaf þessu bestu meðmæli. Þetta var auðveld ákvörðun þannig.“

Viggó hefði viljað vera áfram hjá Leipzig á sínum tíma en hefur nú vonandi fundið sér félag til langs tíma.

„Ég byrjaði síðasta tímabil hjá Leipzig og hefði gjarnan viljað vera þar áfram en ég vissi að ég fengi ekki nýjan samning þar. Þar var einn, sem spilaði stöðu hægri skyttu, meiddur en var að koma til baka og ég var þá fyrir aftan hann í röðinni.

Svo vantaði Wetzlar hægri skyttu og þeir buðu í raun betri samning. Það var því auðvelt að ákveða mig,“ bætti hann við en hann spilaði 16 leiki fyrir Wetzlar og skoraði 25 mörk fyrir liðið sem endaði í 9. sæti, sæti fyrir neðan Leipzig og þremur sætum fyrir ofan Stuttgart.

Metnaður til að fara hærra

Stuttgart er þó stórt félag sem ætlar sér stóra hluti. Wetzlar er lítill bær þar sem um 50 þúsund manns búa en rúmlega hálf milljón býr í borginni Stuttgart. Viggó er fullur tilhlökkunar fyrir nýju verkefni og hefur hann trú á að liðið geti staðið sig í vetur. Sjálfur getur hann líka verið fullur sjálfstrausts eftir ágætt fyrsta ár í Þýskalandi og góða frammistöðu á Evrópumeistaramótinu í janúar.

„Ég spilaði við þá tvisvar í fyrra. Þeir byrjuðu illa og voru í basli á síðustu leiktíð en gengur betur eftir Evrópumeistaramótið. Þetta er lið sem á alls ekki að vera í kjallaranum og þetta félag hefur metnað til að fara hærra, vill gera það á næstu árum. Það eru góðir máttarstólpar í liðinu, þýskir landsliðsmenn.

Viðtalið við Viggó má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »