Liðin skiptu með sér stigunum í Eyjum

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sækir að marki Akureyringa í Vestmannaeyjum í …
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sækir að marki Akureyringa í Vestmannaeyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV gerði jafntefli við KA/Þór þegar liðin áttust við í Vestmannaeyjum í dag en leikurinn var sá síðasti í 1. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik sem hófst í gær.

Eyjakonur hafa safnað liði í sumar og eru með feikisterkt lið. KA/Þór eru nýkrýndir meistarar meistaranna eftir stórsigur þeirra gegn Fram og eru ekki með verra lið.

Stemningin og spennan var mikil á lokakaflanum og mátti ekkert út af bregða hjá liðunum. Eyjakonur nánast köstuðu leiknum frá sér en þær voru yfir frá 10. mínútu leiksins.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af, en heimakonur leiddu leikinn lengst af, þó voru gestirnir aldrei langt undan. Aldís Ásta Heimisdóttir lék vel í fyrri hálfleik og gerði þrjú mörk án þess að gefa nokkrar stoðsendingar. Rut Arnfjörð kemur einnig með ferskan blæ inn í lið norðankvenna, hún og Martha Hermannsdóttir náðu hættulega vel saman á köflum.

Vörn heimakvenna stóð vel framan af en Marta Wawrzynkowska varði mjög vel oft á tíðum í fyrri hálfleik. Þá var Matea Lonac einnig í ágætisham í marki gestanna í fyrri hálfleik. Birna Berg Haraldsdóttir, stórskytta Eyjakvenna, náði sér alls ekki á strik í fyrri hálfleik en hún skoraði einungis eitt mark úr sínum fimm skotum.

Í seinni hálfleik komust gestirnir miklu nær og var jafnt á flestum tölum undir lok leiksins. Staðan var 21:21 þegar þrjár mínútur voru eftir og spennan gríðarleg. Rétt áður höfðu gestirnir komist inn í tvær sendingar heimakvenna og jafnað metin.

Ruðningur báðum megin á vellinum fór í taugarnar á þjálfurum liðanna. Gestirnir misstu Aldísi af velli þegar rúm mínúta var eftir en stóðu vörnina þar vel. Þegar 29 sekúndur voru eftir tóku gestirnir leikhlé og freistuðu þess að skora sigurmarkið.

Þrír tapaðir boltar á fimm sekúndum litu dagsins ljós og strax eftir það tóku Eyjakonur leikhlé þegar fjórar sekúndur voru eftir. Karolina Olszowa náði ekki einu sinni að taka fríkastið því hún tók tvö skref áður en hún sendi boltann. KA/Þór fékk því fríkast þegar tíminn var úti. Sólveig Lára tók fríkastið beint í andlitið á Birnu Berg og fékk því rautt spjald.

Rut Jónsdóttir, leikmaður KA/Þórs, í Vestmannaeyjum í dag.
Rut Jónsdóttir, leikmaður KA/Þórs, í Vestmannaeyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
ÍBV 21:21 KA/Þór opna loka
60. mín. Ásta Björt Júlíusdóttir (ÍBV) skýtur yfir Mjög hátt yfir, virkilega hátt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert