Þetta gerir okkur öllum gott

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, á hlíðarlínunni í dag.
Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, á hlíðarlínunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var alls ekki óánægður með stigið sem liðið vann sér inn í deild.

Stigið vannst í leik gegn KA/Þór sem fram fór í dag, leikurinn var liður í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik sem kláraðist í kvöld. Sigurður var þó ekki ánægður með hvernig hans konur kláruðu leikinn.

Sigurður talaði um það í fyrra hve ójöfn deildin væri orðin og kallaði eftir því að leikmenn myndu fara í önnur lið en Fram og Val. Sigurði varð að ósk sinni í sumar þar sem önnur lið eins og t.d. ÍBV, KA/Þór og Stjarnan fengu til sín öfluga íslenska leikmenn sem leikið hafa erlendis.

„Ég er ekkert ósáttur við að gera jafntefli við KA/Þór, við erum þó á heimavelli og leiddum allan leikinn, yfir því er ég fúll. Það er ekkert flóknara en það að við köstum frá okkur sigrinum síðustu fimm mínúturnar. Þetta gerist oft þegar lykilmenn fá rautt, annaðhvort slær andstæðingurinn af eða þær þurfa að taka af skarið. Ég er ekkert alveg í skýjunum, en ekki grautfúll.“

Eyjakonur stýrðu leiknum lengi vel áður en þær misstu tökin undir lokin.

„Ég er alla vega á því að við höfum stýrt leiknum, bæði í fyrri hálfleik og seinni var þetta gott. Við breyttum aðeins áherslum varnarlega, fórum að plúsa á Rut, ég ætlaði bara að prófa það á meðan við vorum einum fleiri, en mér fannst það virka og hélt því áfram. Harpa kom flott inn í það, þegar það opnast þá galopnast það í þessari vörn. Við unnum líka bolta, sem voru dýrir, við unnum boltann fjórum sinnum og köstum yfir, náðum einungis að skora einu sinni þar. Við munum æfa það í vikunni að kasta yfir völlinn, það þurfa öll lið að geta það.“

Marta Wawzrykowska var frábær í markinu hjá ÍBV, hún var í raun ástæðan fyrir þessu 2-3 marka forskoti sem ÍBV hafði mestallan leikinn.

„Ég sagði það við Andra eftir leikinn að ég held að með eðlilegri nýtingu maður á móti markmanni þá hefðu þær unnið leikinn, hún tók af línu og eftir frákast. Hún tók fleiri dauðafæri, Marta var langbest og ég er í skýjunum að sjá hvernig hún er að koma frá Póllandi. Hún fór héðan í mars og hefur verið að segja mér í sumar að hún hafi verið mjög dugleg að æfa. Hún er klárlega ein af topp þremur markvörðum deildarinnar.“

Sigurður er að smíða nokkuð nýtt lið í Eyjum, hann er kominn með tvo nýja leikmenn í hæsta klassa. Þessir leikmenn hefðu kannski fyrir 2-3 árum alltaf farið í Val eða Fram.

„Ég fer ekkert ofan af því að þetta gerir okkur öllum gott, þessi væll í mér í fyrra var bara mín skoðun. Það er ekkert gaman að hafa rosalegt bil, núna erum við að fá fullt af stelpum úr miðlungsdeildum úti til að koma heim í hin og þessi lið. Þetta gerir deildina skemmtilegri, miklu skemmtilegra fyrir áhorfendur og mikil spenna. Þetta skiptir líka máli fyrir landsliðið að þessar stelpur séu alltaf í mikilli keppni. Ég fer ekkert ofan af því að þessi deild verður miklu skemmtilegri en hún hefur verið og er í gangi í íþróttum kvennamegin.“

ÍBV er spáð 2. sæti og KA/Þór því 5., sýnir þetta kannski hversu spennandi deildin á eftir að verða?

„Já, það er engin spurning. Ég held að þetta verði lið í sætum 1 - 6 sem muni taka stig af hvert öðru, sem hefur ekki verið. Þetta hafa verið lið úr sætum 3 - 6 að taka stig af hvert öðru, ég vona og held að allir voni að þessi deild verði skemmtileg. Það er miklu skemmtilegra fyrir blaðamenn, Stöð 2 og alla.“

Næsti leikur ÍBV er gegn HK, en þær voru hættulega nálægt því að taka stig af Fram í síðasta leik.

„Við spiluðum æfingaleik við þær um daginn og hann var bara jafn, þær eru með vængbrotið lið en eru að skríða saman. Það er á útivelli og ég hef ekki unnið þar sem þjálfari, það verður erfiður leikur en ég lofa að við munum gera allt til þess að vinna,“ sagði Sigurður að lokum.

Birna Berg Haraldsdóttir reynir skot að marki Akureyringa í Vestmannaeyjum …
Birna Berg Haraldsdóttir reynir skot að marki Akureyringa í Vestmannaeyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert