Íslensku markverðirnir í stórum hlutverkum

Daníel Freyr Andrésson fór til Guif í Svíþjóð frá Val …
Daníel Freyr Andrésson fór til Guif í Svíþjóð frá Val í sumar og fer vel af stað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensku handboltamarkverðirnir Daníel Freyr Andrésson og Ágúst Elí Björgvinsson voru í stórum hlutverkum í liðum sínum í sænsku og dönsku úrvalsdeildunum í handknattleik í dag.

Daníel Freyr lagði grunn að góðum útisigri Guif gegn IFK Ystad í Svíþjóð, 24:20, en hann varði 16 skot af þeim 33 sem hann fékk á sig í leiknum og var með 48 prósent markvörslu. Keppni í sænsku úrvalsdeildinni hófst nú um helgina.

Ágúst Elí var með 30 prósent markvörslu fyrir Kolding gegn Mors í Danmörku, varði 10 skot af 30, en gat ekki komið í veg fyrir ósigur sinna manna á útivelli, 29:24. Kolding er með tvö stig eftir þrjá fyrstu umferðirnar.

Aron Dagur Pálsson lék ennfremur með Alingsås í sænsku úrvalsdeildinni í dag og skoraði 3 mörk gegn Skövde á útivelli en lið hans steinlá, 31:20.

mbl.is