Heimferðin erfið fyrir KA-menn

Frá leik KA og Selfoss á Akureyri á síðasta tímabili.
Frá leik KA og Selfoss á Akureyri á síðasta tímabili. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sel­foss og KA skildu jöfn 24:24 í há­drama­tísk­um leik í Olís­deild karla í hand­bolta í Hleðslu­höll­inni á Sel­fossi í kvöld. Selfoss skoraði síðustu fjögur mörk leiksins og tryggði sér jafnteflið.

Það er líklegt að heimferðin verði erfið fyrir KA-menn, sérstaklega fyrstu kílómetrarnir. Þeir voru skiljanlega mjög súrir í leikslok enda með unninn leik í höndunum þegar fjórar mínútur voru eftir. Selfyssingar hafa reyndar sýnt það að þeir hætta aldrei og þeir unnu upp fjögurra marka forskot á lokakaflanum.

Sel­foss byrjaði mun bet­ur í leikn­um og komst í 6:2 eftir ellefu mínútur. Þá tóku KA menn leikhlé og eftir það kviknaði heldur betur á gestunum að norðan. Þeir voru betri aðilinn stærstan hluta leiksins, áræðnir í sókninni og spiluðu fína vörn á köflum. KA náði mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik, 10:13, en Selfoss skoraði síðasta markið fyrir hlé og staðan var 13:11 í hálfleik.

Selfyssingum gekk illa að finna taktinn í seinni hálfleik. Sóknirnar voru hægar, vörnin lek og markvarslan engin. Flæðið var fínt í sókninni hjá KA og markaskorunin dreifðist vel á liðið. Stemningin jókst jafnt og þétt hjá KA þegar leið á leikinn og það var dauft yfir Selfyssingum. Staðan var 24:20 þegar fjór­ar mín­út­ur voru eft­ir en þá skelltu Sel­fyss­ing­ar í lás og skoruðu síðustu fjög­ur mörk leiks­ins.

Loka­sek­únd­urn­ar voru hrika­lega spenn­andi en KA fann enga smugu á Sel­fossvörn­inni í gríðarlega langri sókn undir lokin. Þeir fengu að lokum dæmdan á sig ruðning og Guðmund­ur Hólm­ar Helga­son skoraði jöfn­un­ar­mark Sel­foss þegar tólf sek­únd­ur voru eft­ir.

Guðmundur Hólmar var mikilvægur fyrir Selfyssinga í seinni hálfleiknum, tók af skarið í sókninni og var sterkur í vörninni. Tryggvi Þórisson lét líka vel til sín taka í vörninni og komandi leiktíð á eftir að verða gríðarlegur skóli fyrir hann með Guðmund Hólmar sér við hlið. Þá stal Hergeir Grímsson mikilvægum boltum og Vilius Rasimas skellti í lás þegar mest á reyndi eftir að markverðir Selfoss höfðu verið að horfa á stillimyndina í sjónvarpinu stærstan hluta leiksins.

Maður leiksins var hins vegar Nicholas Satchwell, markvörður KA, sem varði mjög vel í leiknum og átti nokkrar mjög góðar vörslur. Selfyssingar voru reyndar duglegir við að skjóta í hann, sérstaklega í fyrri hálfleik en Satchwell kunni að meta það og var í miklu stuði.

Það er varla hægt að segja að liðin hafi skipt stigunum bróðurlega á milli sín. KA menn áttu að klára leikinn en Selfyssingar lögðu allt í lokakaflann og bæði lið eru því með þrjú stig að loknum tveimur umferðum í deildinni.

Selfoss 24:24 KA opna loka
60. mín. KA tapar boltanum Ruðningur á Ólaf! 48 sekúndur eftir!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert