Stórleikir strax í 32ja liða úrslitum

Ljóst er að annaðhvort Haukar eða Selfoss verður að sætta …
Ljóst er að annaðhvort Haukar eða Selfoss verður að sætta sig við að falla út í 32ja liða úrslitum bikarkeppninnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enda þótt aðeins séu þrír leikir í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Coca Cola-bikarsins, verða tveir þeirra sannkallaðir stórleikir og ljóst að tvö úrvalsdeildarlið munu ekki komast í 16-liða úrslit.

Haukar taka á móti Selfyssingum á Ásvöllum og svo mætast Akureyrarliðin Þór og KA í grannaslag af bestu gerð.

Þriðji leikurinn er viðureign B-liðs ÍBV og Vængja Júpíters sem eru nýliðar í 1. deild karla, Grill 66-deildinni.

Önnur lið sitja hjá og mæta til leiks í 16-liða úrslitum en nítján lið eru skráð til keppni í bikarnum að þessu sinni.

Leikirnir fara fram dagana 6.-7. október.

mbl.is